James Holmes, sem sakaður er um að hafa orðið 12 manns að bana í skotárás á miðnæturfrumsýningu myndarinnar The Dark Knight Rises, var leiddur fyrir dómara í dag.
Hegðun Holmes við réttarhöldin vakti athygli, en hann starði ýmist fram fyrir sig eða hafði augun lokuð á meðan sakargiftir voru lesnar upp. Að sögn viðstaddra sýndi hann engin merki iðrunar og sýndi engin svipbrigði.
Ákærurnar á hendur Holmes hljóða upp á 12 morð og að hafa þar að auki sært 58 manns alvarlega í skothríð inni í bíósal í Coloradoríki í Bandaríkjunum á föstudag.
Hinn 24 ára gamli Holmes mælti ekki orð frá vörum á meðan ákæruatriðin voru lesin upp, né heldur sá hann ástæðu til að tjá sig þegar lestrinum var lokið.
Meðal verstu fjöldamorða í sögu Bandaríkjanna
Holmes, sem er doktorsnemi í taugalíffræði, virtist ekki fær um að fylgja framgangi réttarhaldanna og höfuð hans rykktist upp og niður meðan á lestrinum stóð. Samkvæmt því sem fram kemur á vef fréttastofunnar AFP virtist sem Holmes væri verulega dasaður eða með skerta einbeitingu.
Óljóst er hvort hann hafi verið undir áhrifum lyfja, en honum er gert að undirgangast sálfræðimat til að kanna andlegt ástand hans og sakhæfi.
Morðin eru meðal verstu fjöldamorða í sögu Bandaríkjanna, en formleg ákæra verður gefin út á hendur Holmes næstkomandi mánudag. Saksóknari hyggst ráðfæra sig við fjölskyldur fórnarlambanna áður en ákvörðun verður tekin um hvort farið verði fram á dauðarefsingu. Aðeins ein manneskja hefur hlotið dauðadóm í Colorado síðan 1976.
Holmes kom inn um eldvarnarútgang á bíósalnum og kastaði tveimur gassprengjum inn í salinn. Því næst hóf hann skothríð, en hann var vopnaður riffli sem hleyptir af 50-60 skotum á mínútu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í New York litaði Holmes hár sitt appelsínugult af þeirri ástæðu að hann telur sig vera Jókerinn, eina aðalpersónuna í Batman-myndunum.