Aftökunni frestað tímabundið

Warren L. Hill.
Warren L. Hill. AFP

Yfirréttur í Georgíuríki í Bandaríkjunum frestaði í kvöld tímabundið aftöku greindarskerts manns, aðeins tveimur tímum áður en aftakan átti að fara fram.

Taka átti Warren Hill af lífi með banvænni sprautu í kvöld kl. 23 að íslenskum tíma, fyrir að drepa annan fanga.

Hill sem er 52 ára blökkumaður, hefur verið 21 ár á dauðadeild. Hann er sagður hafa greindarvísitöluna 70, sem þýðir að hann er alvarlega greindarskertur.

Hæstiréttur í Bandaríkjunum úrskurðaði árið 2002 að þroskaheftir fangar skyldu ekki teknir af lífi því aukin hætta væri á því að þeir væru saklausir dæmdir sekir. Hæstiréttur eftirlét hins vegar hverju ríki fyrir sig að ákveða hverjir væru þroskaheftir og hverjir ekki.

Hill hefði verið fyrsti fanginn í Georgiu til að verða tekinn af lífi með sprautu sem innheldur aðeins eitt eitur en hingað til hefur ríkið notað þriggja lyfja blöndu við aftökur.

Yfirrétturinn komst að því í kvöld að undirréttur hefði ranglega dæmt að þessi nýja aftökuaðferð væri lögleg. Yfirrétturinn á hins vegar eftir að taka afstöðu til þess hvort aftökuaðferðin sé lögleg og það gæti tekið margar vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert