Alþjóðasamfélagið þrýstir á Assad

Frá borginni Aleppo í Sýrlandi í morgun.
Frá borginni Aleppo í Sýrlandi í morgun. AFP

Stjórnarandstæðingar í Sýrlandi saka Bashar al-Assad, forseta landsins, um að hafa látið flytja nokkurt magn efnavopna að landamærum landsins. Áður höfðu stjórnvöld lýst því yfir að þau myndu einungis nota vopnin ef erlendur herafli myndi ráðast á landið. Þrýstingur alþjóðasamfélagsins á ráðamenn í Sýrlandi eykst dag frá degi.

Mikil átök voru í landinu í nótt og í morgun, einkum í borginni Aleppo sem er næst stærsta borg landsins. Herþyrlur stjórnarhersins skutu þar á íbúðarhverfi. Einnig var tekist á í borginni Homs og í héröðunum Hama og Idlib.

Að minnsta kosti 158 létust í átökum í gær

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að a.m.k. 158 liggi í valnum eftir átök gærdagsins, þar af 114 almennir borgarar. Talsmaður samtakanna segir að lík átta manna hafi fundist í Barzeh hverfi í höfuðborginni Damaskus. Hendur fólksins höfðu verið bundnar á bak aftur og hafði eldur verið borinn að einhverjum þeirra.

Stjórnarandstæðingar segja að tilgangurinn með því að fara með efnavopnin að landamærunum sé að senda þau skilaboð til alþjóðasamfélagsins að láta af þrýstingi um að Assad fari frá völdum. 

Auka þrýsting á Assad

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, varaði Assad við beitingu efnavopnanna. „Við munum halda áfram að gera Assad og ráðamönnum hans ljóst að við fylgjumst grannt með þeim,“ sagði Obama. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, krefst þess að Assad fari frá völdum nú þegar og sagði að bandarísk stjórnvöld myndu auka stuðning sinn við stjórnarandstæðinga.

Ráðamenn fleiri landa hafa gefið út áþekkar yfirlýsingar. Rússnesk stjórnvöld minntu Sýrlendinga á að þeir væru aðilar að Genfarsáttmálanum, sem kveður á um bann við notkun efnavopna.

Þá sagðist forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, þar sem helstu samtök sýrlenskra stjórnarandstæðinga hafa aðsetur, þess fullviss að átökin væru senn á enda og að stjórnarandstæðingar myndu fara með sigur af hólmi.

Þrýstingur alþjóðasamfélagsins á stjórnvöld í Sýrlandi eykst dag frá degi. …
Þrýstingur alþjóðasamfélagsins á stjórnvöld í Sýrlandi eykst dag frá degi. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, krefst þess að Assad fari frá völdum nú þegar og sagði að bandarísk stjórnvöld myndu auka stuðning sinn við stjórnarandstæðinga. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert