Skjálfti af stærðinni 6,4 á Richter reið yfir vesturströnd Súmötru í Indónesíu í morgun. Skelfingu lostnir íbúar flúðu heimili sín og á nokkrum stöðum varð rafmagnslaust.
Upptök skjálftans voru á um 22 km dýpi, 34 kílómetrum norðvestur af Simeulue, lítilli eyju skammt hjá Súmötru. Að sögn íbúa á Simeulue varði skjálftinn í u.þ.b. eina mínútu.
„Fólk grét og hljóp með eigur sínar út af heimilum sínum,“ sagði einn íbúanna við AFP-fréttaveituna. „Sums staðar er ekkert rafmagn og ég sé sprungur í veggjum húsanna í kringum mig. Sumir ætla aftur heim til sín en aðrir eru hræddir við eftirskjálfta og ætla að halda sig utandyra.“
Að sögn yfirvalda lést einn maður í morgun. Sá hafði verið að hlaupa út af heimili sínu þegar hann hné niður og dó. Þá segja þau að skjálftinn hafi ekki valdið alvarlegu tjóni á byggingum eða öðrum mannvirkjum. Ekki væri ástæða til að gefa út flóðbylgjuviðvörun.