Elísabet Bretlandsdrottning stökk út úr þyrlu í fallhlíf yfir ólympíuleikvanginum í kvöld. Eða svo átti fólk í það minnsta að halda. Í myndskeiði sást leikarinn Daniel Craig, best þekktur fyrir hlutverk sitt í James Bond-myndunum, sækja drottninguna á þyrlu.
Þyrlan sást síðan fljúga um alla London og sögufræga staði borgarinnar.
Að lokum kom þyrlan að leikvanginum og svo var búið um hnútana að engu væri líkara en drottningin sjálf henti sér út úr þyrlunni í fallhlíf ásamt James Bond.
Mikil fagnaðarlæti brutust út er Elísabet gekk svo, á sinn hæverska hátt, fram á sviðið, klædd laxableikri dragt.
Í kjölfarið söng barnakór þjóðsöng Bretlands fyrir drottninguna og þann milljarð áhorfenda sem sagðir eru fylgjast með setningarathöfninni í kvöld.