James Holmes, sem grunaður er um að hafa myrt 12 manns í skotárás á miðnæturfrumsýningu nýjustu Batman myndarinnar, var sjúklingur sálfræðikennarans sem hann sendi ítarleg gögn um morðið. Hann hafði gengið til sálfræðingsins í nokkra mánuði áður en árásin átti sér stað.
Sálfræðingurinn, sem sérhæfir sig í geðhvarfasýki, starfaði við háskólann í Colorado þar sem Holmes stundaði nám samkvæmt því sem fram kemur í gögnum sem lögð voru fram við réttarhöldin.
Fram hefur komið að Holmes sendi Lynne Fenton sem starfar sem kennari við læknadeild skólans og er deildarstjóri yfir sálfræðideild skólans, glósubók sem hafði að geyma nákvæmar lýsingar á árásinni ásamt teiknuðum myndum af illvirkinu sem Holmes hugðist fremja.
Tjáningarbann á skólann
Óljóst er hvenær sendingin barst skólanum en dómarar við héraðsdóm Colorado hafa sett tímabundið tjáningarbann á forsvarsmenn skólans vegna réttarhagsmuna.
Skólayfirvöldum var gert að afhenda glósubókina og er hún mikilvægt sönnunargagn í málflutningi sækjenda.
Verjendur í málinu hafa hins vegar krafist þess að glósubókin verði ekki tekin gild sem sönnunargagn vegna þess að hún falli undir trúnað milli geðlæknis og sjúklings, þar sem Holmes hafi verið í geðrænni meðferð hjá Dr. Fenton.
Holmes stundaði doktorsnám í taugalíffræði við skólann, en hann er ásakaður um að hafa framið 12 morð og gert 58 tilraunir til morðs þann 20. júlí síðastliðinn. Hann mætir næst fyrir rétt á mánudag, þar sem kærurnar á hendur honum verða formlega bornar upp.