Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands, mun í dag reyna að sannfæra Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Seðlabanka Evrópu um að Grikkir eigi skilið að fá lokahluta neyðaraðstoðarinnar afgreiddan.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að ESB, AGS og seðlabankinn fari nú yfir ríkisfjármál Grikklands áður en ákvörðun verður tekin um hvort afgreiða eigi 31,5 milljarða evra lán til grísku stjórnarinnar.
Ljóst er að ef Grikkir munu standa frammi fyrir gjaldþroti og yfirgefa evrusamstarfið fái þeir ekki lánið.
Í gær sagði Samaras að grísk stjórnvöld myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að koma Grikklandi aftur á réttan kjöl.
Ríkisstjórn landsins vinnur nú að gerð tveggja ára áætlunar þar sem stefnt er að því að skera niður ríkisútgjöldin sem nemur 11,7 milljörðum evra. Talið er að grískur almenningur megi búast við frekari skerðingu á lífeyrisréttindum, bótum og útgjöldum til heilbrigðismála.