Setningarathöfn Ólympíuleikanna er hafin

10.600 keppendur frá 205 löndum. 80 þúsund áhorfendur. 15 þúsund sjálfboðaliðar og mörg hundruð starfsmenn. Setningarathöfn Ólympíuleikanna í London, sem sögð er kosta 5 milljarða króna, er hafin. Búist er við því að milljarður manna um allan heim fylgist með athöfninni í sjónvarpi.

Fyrir athöfnina flugu Rauðu örvarnar, sýningarsveit breska flughersins, yfir leikvanginn við gríðarlegan fögnuð áhorfenda.

Athöfnin hófst á því að slegið var í ólympíubjölluna en að því loknu söng stúlknakór syrpu af þekktum og þjóðlegum breskum lögum. Þá var klukkuturninum Big Ben hringt í þrjár mínútur, í fyrsta sinn síðan í útför Georgs konungs árið 1952.

Andrúmsloft enskrar sveitar svífur yfir vötnum. Leikmyndin er sveitabær með öllu tilheyrandi, bændum og búaliði. Tímabilið frá iðnbyltingu til fyrri heimstyrjaldar verður m.a. haft að leiðarljósi í athöfninni. Segja forsvarsmenn leikanna að allir áhorfendur verði látnir taka þátt í athöfninni með einum eða öðrum hætti.

Farið hefur verið yfir sögu breskrar tónlistar og breskra sápuópera sem notið hafa vinsælda um allan heim.

Mikil leynd hefur hvílt yfir setningarathöfninni og sama og ekkert verið gefið upp um dagskrána. Eitt er þó víst: Senn verður ólympíueldurinn tendraður á leikvanginum og þar mun hann loga þar til leikunum lýkur 12. ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert