Ríkisstjórn Spánar segir að það komi ekki til greina að biðla til alþjóðasamfélagsins um neyðaraðstoð þrátt fyrir vaxandi áhyggjur af stöðu efnhagsmála í landinu.
„Það verður engin neyðaraðstoð og neyðaraðstoð er ekki valkostur,“ segir Soraya Saenz de Santamaria, talskona spænsku ríkisstjórnarinnar, á blaðamannafundi í dag að loknum ríkisstjórnarfundi.
„Búið er að útiloka neyðaraðstoð,“ bætti hún við. Það hafi verið gert þrátt fyrir getgátur manna í fjölmiðlum um neyðaraðstoð eða utanaðkomandi inngrip í spænskt efnahagslíf.
Hagfræðingar hafa varað við því að Spánn þurfi á neyðaraðstoð að halda til viðbótar fyrir 100 milljarða evru lánalínu sem fjármálaráðherrar evruríkjanna samþykktu nýverið að veita spænskum bönkum.