Talið að milljarður muni fylgjast með útsendingunni

60 þúsund manns söfnuðust saman í Hyde Park í gærkvöldi …
60 þúsund manns söfnuðust saman í Hyde Park í gærkvöldi til að sjá tónlistarmanninn Tyler Rix flytja ólympíueldinn upp á svið. CARL COURT

Setningarathöfn Ólympíuleikanna fer fram í dag á Ólympíuleikvanginum í Stratford í Austur-London. Undirbúningurinn hefur staðið yfir í sjö ár, eða síðan árið 2005 þegar ákveðið var að leikarnir í ár færu fram í borginni.

Athöfnin mun taka u.þ.b. þrjár klukkustundir og er búist við að um milljarður manna muni fylgjast með sjónvarpsútsendingunni.

Mikill bjölluómur heyrðist í London í morgun til að marka upphafsdag leikanna en Big Ben hringdi samfellt í þrjár mínútur. Það gerðist síðast daginn sem George VI konungur var jarðsettur.

Skipuleggjendur leikanna hafa sent frá sér stutta myndbandsklippu með sýnishorni af því sem vænta má á setningarathöfninni í dag, sem stýrt er af leikstjóranum Danny Boyle. Þar má m.a. sjá skrautlega dansara og hjólreiðamenn hjóla við lagið Come Together með Bítlunum.

Stærstu bjöllu Evrópu verður hringt við upphaf setningarathafnarinnar á Ólympíuleikvanginum en auk 80 þúsund áhorfenda, þ.á m. drottningarinnar, þjóðarleiðtoga og stórstjarna, verða þar 10 þúsund sjálfboðaliðar að störfum. Í gærkvöldi var ekki orðið uppselt á athöfnina en nokkrir miðar eru eftir í tveimur hæstu verðflokkunum. Kosta þeir 390 þúsund og 310 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert