Kennir ESB um kreppuna

Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. PHILIPPE WOJAZER

Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði í dag að það væri Evrópusambandinu að kenna að ekki hefði tekist að leysa efnahagsvandræði Evrusvæðisins.

„Það verður að segjast eins og er: þessi kreppa er í raun kreppa Brussel“ sagði Orban í ræðu sinni, en hann var að heimsækja ungverska minnihlutann sem býr í nágrannalandinu Rúmeníu. Sagði hann að ESB væri „aðalhindrunin í vegi þess að finna leiðir til þess að leysa efnahagsvandann.“

„Brussel eyðir mörgum vikum í að skilgreina stærðina á kjúklingabúrum, í að neyða bændur til þess að setja leikföng í svínastíur, og áhyggjur af sálarlífi gæsa þykir mikilvægt Evrópumál á meðan hundruð þúsunda borgara missa atvinnuna, horfa á fjármálakerfi sitt hrynja og finnast sem að það verði erfiðara og erfiðara að láta enda ná saman,“ sagði Orban, sem er formaður ungverskra íhaldsmanna. 

Orban hefur áður átt í deilum við embættismenn Evrópusambandsins, en ríkisstjórn hans hefur verið m.a. sökuð um að hygla samflokksmönnum hans við veitingu embætta. Á föstudaginn tjáði hann athafnamönnum í Búdapest að fólk vonaðist til þess að það yrði ekki nauðsyn að finna nýtt kerfi í stað lýðræðis, en ljóst væri að það þyrfti nýtt efnahagskerfi og nýjar hugmyndir í Evrópu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka