Paul Allen kafar að Hood

Millj­arðamær­ing­ur­inn Paul Allen mun rata í enn eitt æv­in­týrið á næstu vik­um. Allen mun sigla lyst­isnekkju sinni Octop­us  í sam­floti við kon­ung­lega breska sjó­her­inn að flaki skips­ins HMS Hood þegar Ólymp­íu­leik­arn­ir í Lund­ún­um renna sitt skeið á enda.

Her­skipið HMS Hood var skotið niður af þýska her­skip­inu Bis­marck árið 1941. Skipið er það stærsta á veg­um breska sjó­hers­ins sem tapað hef­ur í orr­ustu á sjó, en alls 1.415 manna áhöfn drukknaði þegar skipið sökk. Hood sökk í hinu ís­kalda Dan­merk­ur­sundi milli Græn­lands og Íslands. 

Sam­kvæmt því sem fram kem­ur í um­fjöll­un The New York Post um málið legg­ur sjó­her­inn upp í rann­sókn­ar­leiðang­ur með það að mark­miði að hafa uppi á bjöllu sem var um borð í skip­inu, en finn­ist bjall­an verður hún til sýn­is í nýj­um sýn­ing­ar­sal kon­ung­lega sjáv­ar­minja­safns Breta í Ports­mouth, sem opn­ar árið 2014. Allen styrk­ir leiðang­ur­inn og tek­ur þátt í hon­um, en bú­ist er við að op­in­ber­lega verði til­kynnt um leit­ar­ferðina í dag.

„Mjög tak­markaður tími gefst til leit­ar­inn­ar vegna veðuraðstæðna,“ seg­ir talsmaður breska sjó­hers­ins.  „End­ur­heimt skips­bjöllu úr flaki hef­ur alltaf verið mjög mik­il­væg, en bjöll­ur hafa í marg­ar ald­ir verið notaðar um borð í skip­um í til­kynn­inga- og ör­ygg­is­skyni,“ seg­ir talsmaður­inn. „Þær eru mik­il­væg hefð á hafi úti og eru oft notaðar í minn­ing­ar­at­höfn­um,“ bæt­ir hann við.

Lán­ar snekkj­una end­ur­gjalds­laust

Allen, sem er einn af stofn­end­um Microsoft, seg­ist mjög bjart­sýnn á ár­ang­ur leiðang­urs­ins . Aðkoma hans að leiðangr­in­um er í sam­starfi við köf­un­ar­fyr­ir­tækið Blue Water Reco­veries, sem upp­haf­lega hafði uppi á flak­inu Hood árið 2001. Talið er að hin gríðarþunga og stóra látúns­bjalla sé staðsett nokkru utan við flakið.

Octop­us, lyst­isnekkja Allens er 4141 fet á lengd og hef­ur að geyma tvær þyrl­ur, fjar­stýrð köf­un­ar­tæki og kaf­bát.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Allen býður snekkj­una fram til leit­ar­starfa því í apríl síðastliðnum lánaði hann skipið til leit­ar í Kyrra­hafi eft­ir að flug­vél hvarf á þeim slóðum. Snekkj­an er í höfn í aust­ur­hluta London. 

„Paul lán­ar snekkju sína án end­ur­gjalds í leiðang­ur­inn, sem ger­ir sjó­hern­um kleift að sýna bresk­um al­menn­ingi bjöll­una,“seg­ir talsmaður Allens í sam­tali við fjöl­miðla. „Um er að ræða viðamikið sam­starfs sem við höf­um fulla trú á að muni skila sér í viðeig­andi minn­ing­ar­at­höfn fyr­ir skipið og áhöfn þess,“ sagði hann enn frem­ur.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert