Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ræddi við Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, í síma í dag en þjóðhöfðingjarnir fóru yfir hvernig samræma mætti aðgerðir til að flýta fyrir stjórnarskiptum í Sýrlandi. Þetta segir talsmaður Hvíta hússins í Washington.
Fram kemur í yfirlýsingu að meðal þess sem rætt hafi verið um sé brotthvarf Bashars al-Assads úr stóli forseta og að stjórnvöld hlíti kröfum almennings í Sýrlandi.
Þá segir að Obama og Erdogan hafi báðir lýst því yfir að þeir hafi áhyggjur af aðgerðum sýrlenskra stjórnvalda gagnvart stjórnarandstæðingum í landinu og að staða mannréttinda fari versnandi í kjölfar grimmdarverka stjórnvalda í Sýrlandi.
Þeir hétu því að samræma aðgerðir til að aðstoða íbúa sem hafa flúið átökin, en margir hafa farið yfir landamærin til Tyrklands eða annarra nágrannaríkja.
Þá segir í yfirlýsingu Hvíta hússins að Bandaríkjamenn og Tyrkir muni vera í nánum samskiptum varðandi samstarf þjóðanna til að stuðla að lýðræðislegum breytingum í Sýrlandi.