Pari í Mississippi var brugðið er presturinn í bæjarkirkjunni þeirra sagði þeim að brúðkaupið sem þau væru að undirbúa myndi ekki fara fram í kirkjunni þar sem þau væru svört.
Presturinn Stan Weatherford segir að blökkufólk hafi aldrei verið gift í kirkjunni sinni, First Baptist Church í Crystal Springs. Kirkjan var vígð árið 1883.
Hann segir að margir hvítir safnaðarmeðlimir hafi verið mótfallnir því að Charles og Te'Andrea Wilson fengju að ganga í hjónaband í kirkjunni og hafi hótað honum brottrekstri.
Weatherford er sjálfur hvítur. Hann bauðst til að gifta parið í annarri kirkju í nágrenninu.
„Níu ára dóttir mín fer með okkur til kirkju. Hvernig útskýrir maður fyrir níu ára barni: „Heyrðu elskan, við mamma megum ekki giftast í þessari kirkju af því að við erum svört,““ sagði Charles Wilson í samtali við ABC-sjónvarpsstöðina.
Íbúar í bænum eru margir hverjir slegnir yfir ákvörðun prestsins.
„Þessi kirkja var eins og heimili þeirra,“ segir einn íbúinn. „Hvað hefði Jesús gert? Hann hefði gift þau, án efa, því það er það eina rétta. Við erum öll börn guðs.“