Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi hafa nú staðfest að uppreisnarherinn í Aleppo búi yfir þungvopnum, þ.á.m. skriðdrekum og orrustuþotum.
Hart hefur verið barist í hinni fornu borg Aleppo undanfarna fjóra daga. Óvopnaðir friðargæsluliðar SÞ fóru til borgarinnar í gær til að kanna aðstæður og staðfestu síðdegis í dag að uppreisnarherinn væri þungvopnaður. Yfir 20.000 manns hafa flúið Aleppo að sögn Sameinuðu þjóðanna og margir þeirra íbúa sem eftir eru leita skjóls í skólum og öðrum opinberum byggingum.
Nokkrir sérfræðingar í málefnum Mið-Austurlanda hvöttu í dag Bandaríkin til að hernaðarlegs inngrips. Því lengur sem átökin dragist á langinn því meiri sé hættan á voðaverkum og þjáningu. Martin Indyk, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael, sagði á fundi með öldungadeild Bandaríkjaþings í dag að skelfilegar afleiðingar átakanna vofi yfir Sýrlandi.
„Þess vegna tel ég að það sé mikilvægt að við blöndum okkur í málið af meiri þunga, en við verðum að gera það af skynsemi [...] Við verðum að vita hverjir það eru sem við afhendum vopn," sagði hann og bætti við að óvíst væri hvort Bandaríkin hefðu skýra sýn á alla þá ólíku hópa sem stjórnarandstaðan í Sýrlandi samanstendur af.
Andrew Tabler, sérfræðingur hjá Institute for Near East Policy gagnrýndi stefnu Bandaríkjanna gagnvart Sýrlandi í dag og sagði Bashar al-Assad ítrekað hafa hundsað alla skilmála sem alþjóðasamfélagið hefði sett honum. Hann sagði vaxandi hættu á miklum voðaverkum og jafnvel þjóðarmorði í Sýrlandi, en 20.000 manns hafa þegar beðið bana í átökunum. Hann sagði jafnframt hætt við því að þeir sem tækju við stjórninni í Sýrlandi á eftir Assad verði fjandsamlegir Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra.