Bandaríkin saka Assad um hugleysi

Stjórnvöld í Bandaríkjunum fordæmdu Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í dag en þau saka forsetann um hugleysi og að haga sér auvirðilega með því að hvetja sýrlenska hermenn til að halda áfram að berjast gegn uppreisnarmönnunum.

Patrick Ventrell, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, segir að það sé auvirðilegt og merki um hugleysi að maður sem sé í felum skuli hvetja herinn til að halda áfram að „slátra saklausum borgurum í sínu eigin landi“.

Fyrr í dag sagði Assad að herinn berjist hetjulega í átökum sem hafi úrslitaþýðingu fyrir Sýrland.

„Óvinurinn er meðal vor í dag, hann beitir sendimönnum til að koma á óstöðugleika í landinu, og ógna öryggi borgaranna [...] og heldur áfram að þurrausa fjárhagslegar og vísindalegar auðlindir okkar,“ sagði forsetinn í ræðu í tilefni 67 ára afmælis sýrlenska hersins.

Stjórnvöld í Sýrlandi viðurkenna ekki uppreisnina sem hófst í mars árið 2011. Þau halda því fram að vopnaðar hópar hryðjuverkamanna, sem njóta stuðnings erlendra ríkja, standi á bak við uppreisnina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert