Metmengun í Hong Kong

Útlínur skýjakljúfa Hong Kong sjást vart þessa dagana sökum þykks mengunarskýs sem hvílir yfir svæðinu. Virðast himnarnir gráir þrátt fyrir að veður sé í raun bjart og hlýtt. Hefur íbúum verið ráðlagt að halda sig inni við á meðan það versta gengur yfir.

Ekki hefur meiri mengun mælst í Hong Kong frá árinu 1999 þegar mælingar hófust ef frá er talið eitt skipti fyrir tveimur árum. Þá skall á stormur með agnarsmáum náttúrulegum rykögnum á svæðinu, segir í frétt AFP-fréttastofunnar um málið.

Hafa stjórnvöld nú mælst til þess að íbúar haldi sig að mestu inni við á meðan það versta gengur yfir. Einkum eru þeir varaðir við sem berjast við hjarta- og öndunarfærasjúkdóma, börn og eldri borgarar. 

Áhrif frá hitabeltisstormi

Að sögn stjórnvalda má rekja hluta mengunarinnar nú til fellibylsins Saola sem gekk yfir Taívan, í um 700 km fjarlægð, nú nýverið með tilheyrandi eyðileggingu auk þess sem fjórir létust. Eykur þrýstingur við jaðar stormsins á mengunina í Hong Kong að sögn þarlendra embættismanna, en honum fylgir sterkt sólskin og mikill hiti sem lyftir ósonlaginu yfir svæðinu.

Hafa umhverfisverndarsinnar gagnrýnt að stjórnvöld kenni ýmist veðri eða útblæstri frá verksmiðjum á meginlandi Kína um mengun í Hong Kong. Hafa þeir bent á að veður gæti ekki haft þessi áhrif á mengun á svæðinu ef ekki kæmi til útblástur frá vélum gamalla bíla þar o.s.frv.

3.000 dauðsföll á ári hægt að rekja til mengunar

Í janúar síðastliðnum tilkynntu stjórnvöld endurskoðun loftslagsmarkmiða fyrir Hong Kong í kjölfar þess að rannsókn háskólans á svæðinu sýndi að yfir 3.000 dauðsföll á ári hverju mætti rekja til mengunar í andrúmsloftinu.

Ferðamenn taka mynd af skýjakljúfum Hong Kong sem virðast í …
Ferðamenn taka mynd af skýjakljúfum Hong Kong sem virðast í þoku. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert