Obama og Pútín axli ábyrgð

Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvetur stjórnvöld í Rússlandi og í Bandaríkjunum til að axla ábyrgð og grípa til aðgerða til að stöðva borgarastyrjöldina í Sýrlandi.

Þetta kemur fram í grein sem Annan skrifar í Financial Times. Hann tilkynnti í dag að hann hefði látið af störfum sem friðarerindreki SÞ og Arababandalagsins gagnvart Sýrlandi.

Annan segir að vestræn hernaðaríhlutun muni ekki ein og sér skila tilætluðum árangri. Þá sagði hann ef menn kæmu ekki fram með yfirgripsmiklar pólitískar lausnir á ástandinu væru þær lausnir dæmdar til að mistakast.

„Það er enn hægt að bjarga Sýrlandi frá enn verri hörmungum. En þörf er á hugrekki og leiðtogahæfni, þá aðallega frá öllum fulltrúum sem eiga fast sæti í öryggisráði SÞ, þetta á meðal annars við um forsetana Obama og Pútín,“ skrifaði Annan.

Hann segir að öryggisráðinu hafi mistekist að komast setja saman áætlun um hvernig eigi að taka á ástandinu í Sýrlandi og stöðva ofbeldisverkin sem hafa færst í aukana. Þar hafi menn bent hver á annan og kallað hver annan illum nöfnum í stað þess að vinna saman.

Þá hefur Annan sagt að friðaráætlunin sem hann setti saman í apríl sl. hafi ekki fengið þann stuðning frá stórveldunum sem hún átti skilið.

Kofi Annan.
Kofi Annan. AFP
Sýrlensk ungmenni leika sér ofan á ónýtum skriðdreka rétt norðan …
Sýrlensk ungmenni leika sér ofan á ónýtum skriðdreka rétt norðan við borgina Aleppo í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert