Leon Panetta, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fundaði í morgun með Abdullah II, konungi Jórdaníu, um hugsanlega þróun stjórnmálaástandsins í Sýrlandi eftir að Bashar al-Assad forseti Sýrlands færi frá völdum.
„Þeir voru sammála um að alþjóðasamfélagið þyrfti að senda frá sér skýr skilaboð um að Assad verði að víkja og að almenningur í Sýrlandi eigi það skilið að ákveða eigin framtíð,“ sagði George Little, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon, við fréttamenn í morgun.
„Panetta hét því að Bandaríkin myndu halda áfram samvinnu sinni við Jórdana um að veita þeim mannúðaraðstoð sem eiga um sárt að binda vegna átakanna,“ sagði Little.
Rúmlega 145.000 Sýrlendingar hafast nú við í Jórdaníu eftir að hafa flúið átökin í eigin heimalandi. Reistar hafa verið flóttamannabúðir fyrir fólkið, en þær taka einungis 120.000 manns.
Á þriðjudaginn skaut sýrlenski herinn á hóp fólks sem var að fara yfir landamærin að Jórdaníu. Þriggja ára gamalt barn lét lífið.