Lögreglan í Vermontríki í Bandaríkjunum fékk að kenna á því í vikunni frá bóndanum Roger Pion sem í júlí var handtekinn fyrir vörslu fíkniefna. Pion var ósáttur við handtökuna og ákvað að gera sér ferð á bílastæði lögreglunnar og keyra traktor yfir að minnsta kosti sjö lögreglubíla.
Á vef breska ríkisútvarpsins segir að lögreglumennirnir hafi allir verið inni á lögreglustöðinni þegar atvikið varð og ekki áttað sig á því fyrr en þeir fengu tilkynningu frá óbreyttum borgara. Þegar lögreglan ætlaði að athuga málið var Pion á bak og burt og það sem meira er, ekki var hægt að gera leit að honum því allir lögreglubílarnir voru óökufærir.
„Ég trúði ekki mínum eigin augum, mér leið eins og ég væri að horfa á klessubílarall. Hann keyrði yfir bílana, einn af öðrum,“ segir sjónarvottur.
Pion var handtekinn skömmu seinna skammt frá vettvangi af lögregluyfirvöldum í nágrannabæjarfélagi.