Clinton fundar með Tyrkjum um Sýrland

Clinton er væntanleg til Tyrklands um næstu helgi.
Clinton er væntanleg til Tyrklands um næstu helgi. AFP

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsækir Tyrklands nk. laugardag þar sem hún tekur þátt í viðræðum um ástandið í Sýrlandi. Talsmaður utanríkisráðuneytisins segir að fundurinn fari fram í Istanbúl og þar muni Clinton funda með ríkisstjórn Tyrklands.

Clinton er á ferðalagi um Afríku og er nú stödd í Malaví. Hún mun á næstunni heimsækja Nígeríu og Benín, áður en hún flýgur til Tyrklands.

Rúmlega 21.000 manns hafa fallið í Sýrlandi frá því uppreisnin gegn stjórn Bashars al-Assads, forseta landsins, hófst fyrir 17 mánuðum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, samþykktu í lok síðasta mánaðar að hraða stjórnarskiptum í Sýrlandi, en menn eru sammála um að Assad eigi að fara frá völdum. 

Tyrknesk stjórnvöld styðja uppreisnarmenn í Sýrlandi og hafa m.a. tekið á móti fjölmörgum liðhlaupum og öðrum flóttamönnum. Alls hafa 18 sýrlenskir hershöfðingjar flúið yfir til Tyrklands fá því uppreisnin hófst í mars í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert