Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, segir að spennan sem hafi skapast í Evrópu vegna evruvandans hafi þegar leitt til þess að ríki hafi snúist hvert gegn öðru. Hann óttast þróunina og segir að vandinn megi ekki leiða til þess að Evrópa sundrist.
Margir Ítalir eru reiðir út í Þjóðverja vegna framgöngu þeirra varðandi leiðir til að taka á skuldavandanum í Evrópu og eru þeir sakaðir um hroka. Monti var spurður út í þetta og í viðtali við þýska tímaritið Der Spiegel segist ráðherrann hafa áhyggjur.
Hann segir að reiðin á Ítalíu beinist ekki aðeins að Þýskalandi og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, heldur einnig að Evrópusambandinu og evrunni.
Monti tekur fram að vandinn sé meiri en svo að hann varði einvörðungu samskipti Ítalíu og Þýskalands.
„Álagið, sem hefur fylgt evrusvæðinu undanfarin ár, er þegar farið að bera einkenni sálfræðilegrar sundrungar í Evrópu,“ sagði Monti.
„Við verðum að leggja hart að okkur til að hafa hemil á slíku,“ segir hann.
Þá segir hann að ef Evrópa liðast í sundur vegna evrunnar muni grunnstoðir Evrópuverkefnisins standa eftir ónýtar.