Sjö látnir í Wisconsin í skotárás

Sjö eru látnir í Wisconsin, þar á meðal einn af …
Sjö eru látnir í Wisconsin, þar á meðal einn af byssumönnunum.

Sjö eru látnir í Milwaukee í Wisconsin þar sem byssumenn réðust inn fyrr í dag og særðu fjölda fólks áður en þeir tóku aðra viðstadda sem gísla, þar á meðal börn. Einn byssumaðurinn hóf skotárás sem varð til þess að hann og sex safnaðarmeðlimir létust í átökum lögreglu og byssumannsins. Þetta kemur fram á fréttavef AFP-fréttaveitunnar.

Ekki er búið að bera kennsl á byssumanninn, né aðra byssumenn sem enn eru með fólk í haldi.

Fjórir hinna látnu voru skotnir inni í síkhamusterinu, þar sem söfnuðurinn er, en þrír létust utan dyra.

Lögreglumaðurinn sem skaut byssumanninn fékk fjölmörg skot í sig og er nú á sjúkrahúsi. Hann er ekki talinn í lífshættu. Þrír af þeim sem upphaflega urðu fyrir skotárásinni eru í lífshættu á sjúkrahúsi, en talið er að allt að þrjátíu hafi særst fyrr í dag.

Vitni hafa sagt að allt að fjórir byssumenn hafi ráðist á söfnuðinn upphaflega. Skotárásin átti sér stað kl. 15:30 að íslenskum tíma.

Ekki liggur fyrir hvað varð til þess að mennirnir réðust á söfnuðinn.

AFP segir meðlimi safnaðarins bera túrban til að hylja hár sitt, en trúin er upprunnin á Indlandi. Safnaðarmeðlimir eru oft, í Bandaríkjunum, álitnir múslímar og hafa því stundum verið skotmark öfgamanna sem eru andstæðir íslamstrú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka