Sú staðreynd að hátt settir embættismenn gerast nú liðhlaupar og flýja Sýrland sýnir að Bashar al-Assad er búinn að missa tökin og stuðningsmenn hans telji að dagar hans séu taldir. Þetta segja talsmenn Öryggisráðs og utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Forsætisráðherra Sýrlands er flúinn til Jórdaníu.
Sýrlenska ríkissjónvarpið sagði frá því í morgun að Riad Hijab forsætisráðherra, sem skipaður var af Bashar al-Assad fyrir tveimur mánuðum og talinn traustur stuðningsmaður hans, hefði verið rekinn. Í kjölfarið bárust af því fregnir að hann hefði í raun hlaupist undan merkjum og flúið land. Þetta hefur nú verið staðfest, en talsmaður ráðherrans segir að hann hafi flúið ásamt fjölskyldu sinni yfir landamærin til Jórdaníu í nótt og ætli að taka höndum saman við uppreisnarmenn um að steypa Assad.
Hijab er hæst setti liðhlaupinn til þessa en átökin sem staðið hafa í 17 mánuði í Sýrlandi hafa stigmagnast síðustu vikur og nokkur fjöldi bandamanna Assads yfirgefið landið. Hijab er meðal valdamestu súnnímúslima landsins. Hann sakar Assad um að fremja þjóðarmorð gegn eigin fólki og segir að fjögurra áratuga stjórn Assad-fjölskyldunnar sé á enda runnin.
Tommy Vietor, talsmaður Öryggisráðs Bandaríkjanna, sagði í Washington í dag að þessar nýjustu fréttir gæfu enn frekar til kynna að Assad „hefði misst stjórnina yfir Sýrlandi og stjórnarandstæðingar hefðu nú aukinn skriðþunga. Fljótlegasta leiðin til að binda enda á blóðbaðið og þjáningu sýrlensku þjóðarinnar væri ef Bashar al-Assad gæti viðurkennt að Sýrlendingar vilja ekki hafa hann áfram við völd“, hefur Afp eftir Vietor.
Talsmaður Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir sömuleiðis að flótti hátt settra embættismanna þýði að stjórn Assads standi á brauðfótum. Assad sjálfur fer huldu höfði.
Síðustu daga hefur harðast verið barist í borginni Aleppo og herma fregnir frá uppreisnarmönnum að sprengjum hafi rignt yfir borgina í dag og um 20.000 stjórnarhermenn umkringi hana.