Norskir birnir brutust inn í skála og héldu partíá dögunum. Fjölskyldan sem átti skálann, sem er í Norður-Noregi nálægt landamærum Rússlands, kom á laugardaginn í skálann og var þá allt í rúst.
Húsgögnin voru brotin og ísskápurinn lá á hlið tómur. Maturinn hafði verið étinn og kofinn var fullur af tómum bjórdósum. Það voru 120 bjórdósir í skálanum og voru 100 tómar þegar fjölskyldan kom í skálann. Þar að auki var mikill bjarnarfnykur inni.
Í einu rúminu voru augljós merki eftir björn, dýnan var öll út í hárum og stór tannaför í dýnunni ásamt tómum kókflöskum. „Það er enginn vafi á því að hér hafa verið birnir, það sést bæði á veggjum og húsgögnum,“ segir eigandi skálans við Aftenposten.
Birnirnir kláruðu nánast allan mat í skálanum, þar á meðal súkkulaði, sykurpúða og hunang, auk þess að klára fjöldann allan af bjórdósum. „Ég myndi halda að þeir gætu fundið fyrir áhrifum bjórsins í nokkra daga á eftir. Flestar bjórdósirnar voru með stórar holur eftir bjarnartennur,“ segir Borthen Nilsen. Þá telur hann að birnirnir hafi verið þarna nýlega þar sem maturinn sem kastað hafði verið í kring var ekki byrjaður að skemmast.
Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er talið að um sé að ræða birnu og þrjá húna sem hafa sést á svæðinu að undanförnu.