Clinton horfir hýru auga til Afríku

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkin vilja efla viðskipti við Afríku þar sem efnahagur álfunnar er í vexti, þrátt fyrir fjármálakreppuna, sagði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag.

„Þegar við lítum til Afríku sjáum við hversu gríðarlegur vöxtur er í hagkerfinu þar, þrátt fyrir að hagkerfið á heimsvísu eigi í basli. Sjö af tíu ríkjum heims sem eru í mestum vexti eru á þessu svæði,“ sagði Clinton á samkomu bandarískra og suðurafrískra fjármálamanna í Jóhannesarborg í dag.

„Þessir vaxandi markaðir veita Bandaríkjunum gríðarleg tækifæri í viðskiptum og fjárfestingum,“ sagði Clinton.

Clinton sagði að Suður-Afríka væri stærsta viðskiptaland Bandaríkjanna í allri álfunni með um viðskipti upp á 22 milljarða bandaríkjadala á ársgrundvelli.

„Á næstu tveimur áratugum mun Suður-Afríka fjárfesta mikið inn á við, í uppbyggingu þjóðfélagsins, sem mun skapa afar stór ný tækifæri fyrir viðskipti Bandaríkjamanna í orku, samgöngum og samskiptatækni. Það mun þýða fleiri störf í Suður-Afríku og fleiri störf í Bandaríkjunum,“ sagði Clinton.

Hún hélt ræðu sína eftir heimsókn til Nelsons Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, á heimili hans í bænum Qunu, þar sem þau snæddu hádegisverð saman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert