Borgaryfirvöld í spænsku borginni Geroa tilkynntu í dag að héðan í frá yrðu settir lásar á ruslatunnur við matvöruverslanir, til að koma í veg fyrir að fólk rótaði í ruslinu eftir matarafgöngum. Vegna kreppunnar fer þeim fjölgandi sem gera sér mat úr sorpinu í neyð.
Í tilkynningu frá borgaryfirvöldum segir að ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við eigendur matvöruverslana vegna heilbrigðissjónarmiða, þar sem það geti ógnað heilsu fólks að borða úr ruslatunnum.
Að auki hefur verið brugðið á það ráð að setja upp upplýsingaskilti sem leiðbeina fólki hvert það geti farið til að fá mat úthlutaðan hjá hjálparstofnunum, þar sem þess er gætt að matarkörfur innihaldi næringarríkari mat úr nauðsynlegustu fæðuflokkum.
Djúpstæð kreppa er á Spáni þar sem atvinnuleysi er um 25%.