Þremur Svíum, sem stóðu á bak við „bangsaherferðina“ svokölluðu, hefur verið gert að mæta fyrir leyniþjónustu Hvíta-Rússlands, KGB. Er talið að bangsaherferðin sé ástæðan fyrir þeirri deilu sem komin er upp á milli Svíþjóðar og Hvíta-Rússlands.
Tomas Mazetti, einn þremenninganna, segir þá hafa fengið senda beiðni um að mæta á fund KGB en Mazetti er meðeigandi auglýsingastofunnar sem kom deilunni af stað.
Sænskir aðgerðarsinnar flugu ólöglega inn í lofthelgi Hvíta-Rússlands í síðasta mánuði og vörpuðu niður hundruðum bangsa með fallhlífar með áletrun á þar sem málfrelsis og mannréttinda er krafist.
KGB greindi frá því í gær að unnið væri að rannsókn málsins þar sem Svíar hefðu komið með ólöglegum hætti inn í landið á flugvél.
Í yfirlýsingum KGB er þeim Mazetti, Hönnuh Frey og Per Cromwell gert að mæta á fund yfirvalda í Hvíta-Rússlands innan tíu daga. Ef ekki eigi þeir yfir höfði sér tveggja ára betrunarvinnu, sex mánaða fangelsisvist eða greiðslu sektar.
Forseti Hvíta-Rússlands hefur rekið yfirmenn í flugher og landamæragæslu landsins úr starfi vegna málsins.
Mazetti segir í samtali við AFP-fréttastofuna að þeir ætli að krefjast þess að fá tryggingar frá KGB um að ekki eigi að hneppa þá í fangelsi þegar þeir koma til Minsk.
Hinn 3. ágúst var sendiherra Svíþjóðar í Hvíta-Rússlandi vísað úr landi á grundvelli þess að hann væri að reyna að eyðileggja samband ríkjanna tveggja. Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, telur að brottvikningin tengist stóra bangsamálinu.