Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, er hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu í Þýskalandi um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í þýska dagblaðinu Bild am Sonntag. Westerwelle er því á andstæðri skoðun en t.d. Angela Merkel en lítil hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í Þýskalandi.
Í viðtali við blaðið lýsir Westerwelle þeirri skoðun sinni yfir að hann vilji að Evrópusambandinu verði sett raunveruleg stjórnarskrá sem tæki þó ekki gildi nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Westerwelle nefnir þrjú atriði sem hann telur nauðsynlegt að þýska þjóðin greiði atkvæði um. Í fyrsta lagi hvort veita eigi Brussel aukin völd. Í öðru lagi hvort veita eigi fleiri ríkjum aðild að Evrópusambandinu og svo í þriðja lagi um fjárhagsaðstoð Þýskalands til annarra ríkja.
Aðrir áhrifamiklir stjórnmálamenn í Þýskalandi hafa lýst svipuðum skoðunum, þar á meðal forseti sambandsríkisins Bayern. Fyrr í sumar talaði Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, fyrir því að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort auka ætti valdheimildir Brussel.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hins vegar lagst opinberlega gegn því að almenningur í Þýskalandi greiði atkvæði um stefnumál Evrópusambandsins.
Lítil hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í Þýskalandi og jafnvel hefur ríkt nokkur andstaða við slíkt fyrirkomulag. Þýsk lög gera aðeins ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í grundvallarinnanríkismálum svo sem um breytingar á landamærum og hvort taka eigi upp ný grundvallarlög í landinu. Andstöðu við þjóðaratkvæðagreiðslur í Þýskalandi undanfarna áratugi má rekja til valdatíma nasistaflokksins sem notaði ítrekað einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslur við ákvörðunartökur. Þjóðaratkvæðagreiðslur þykja af þeim sökum ekki traustvekjandi.