Norska lögreglan fær harkalegustu útreiðina í skýrslu rannsóknarnefndar um viðbrögð yfirvalda við hryðjuverkunum og fjöldamorðunum 22. júlí í fyrra. Formaður nefndarinnar, Alexandra Bech Gjørv, sagði þegar skýrslan var kynnt að viðbragðstími lögreglu þennan dag hafi verið óásættanlegur.
Áttu að vera viðbúnari
Markmið rannsóknarnefndarinnar var að svara þremur lykilspurningum: Hvað gerðist hinn 22. júlí 2011, hvers vegna gerðist það, og síðast en ekki síst: hvernig gat norskt samfélag látið þetta gerast? Í skýrslu nefndarinnar segir mikilvægt sé að finna svör við þessum spurningum til þess að draga lærdóm af harmleiknum.
Í skýrslunni segir að finna megi ákveðna þversögn í atburðunum, því annars vegar hafi fjöldamorð af þessu tagi verið nokkuð sem fæstir trúðu að gæti gerst í Noregi. Á hinn bóginn hafi yfirvöld samt átt að vera búin undir þau. Viðbrögð við hættu af völdum bílasprengju í stjórnarbyggingum hafi t.d. verið á lista almannavarna í áraraðir.
Ósamræmi í áætlunum og aðgerðum
Eftir 12 mánaða rannsóknarvinnu birti nefndin í dag 482 blaðsíðna langa skýrslu, en dregur jafnframt saman 6 meginatriði sem eru eftirfarandi:
Gjørv formaður nefndarinnar segir að þau úrræði sem voru til staðar 22. júlí hafi ekki verið nýtt og áætlunum ekki fylgt. Má þar nefna að þrátt fyrir að sprengja hafi sprungið í miðri höfuðborg landsins hafi enginn tekið frumkvæði af því að virkja hryðjuverkaáætlunina sem var til staðar. Engin almannavarnarviðvörun hafi verið sett út. Ekkert kerfi var til staðar til að kalla í skyndi út varalið lögreglu.
Röð mistaka hjá lögreglu
Hörðustu gagnrýni fær lögreglan og nefnir rannsóknarnefndin fjölda dýrkeyptra mistaka og klúðurslegra viðbragða. Margir þeirra lögreglumanna sem voru á vakt 22. júlí voru nýir og reynslulitlir starfsmenn. 10 mínútum eftir að sprengjan sprakk hringdi vegfarandi í lögreglu og gaf góða lýsingu á manni sem honum fannst grunsamlegur, klæddur í lögreglubúning og með byssu. Þeirri ábendingu var ekki fylgt eftir í 2 klukkustundir. Engir vegatálmar voru settir upp og götunni þar sem sprengjan sprakk ekki lokað fyrr en löngu síðar.
Nokkur nágrannaumdæmi buðust í gegnum aðgerðamiðstöðina í Ósló til þess að senda aðstoðarlið, en því var hafnað og ekki sögð þörf á því. Lögreglan beið lengi eftir bát til að flytja sig út í eyjuna og þegar hann kom reyndist hann of lítill fyrir svo stórt lögreglulið með búnað og hann varð vélarvana.
Lögreglumennirnir vissu ekki almennilega hvar Útey var og gerðu sér því ekki grein fyrir hve löng bátsferð til eyjunnar yrði. Sá sem stýrði bátnum sem fyrstur fór af stað hélt að önnur ey, Geitey, væri staðurinn. Þannig tafðist för lögreglu til Úteyjar fram úr hófi.
Fyrirskipanir ekki í samræmi við aðstæður
Rannsóknarnefndin segir að aðgerðastjórnunin í Ósló hafi ekki verið nógu góð og upplýsingaflæði milli lögregluumdæma slæmt. Þetta varð til þess að lögreglu skorti yfirsýn yfir þær upplýsingar sem voru til staðar og áttaði sig illa á því hvað var að gerast.
Sú lína sem lögð var fyrir þá lögreglumenn sem fóru til Úteyjar var ekki í samræmi við alvarleika atburðanna þar. „Það er samfélagsleg skylda lögreglunnar að vernda líf og heilsu almennings. Þegar lögreglan veit að verið er að skjóta á fólk á flótta, þá verður fyrst og fremst að gefa fyrirskipun um að stöðva það með öllum tiltækum ráðum. Engu að síður fengu lögreglumennirnir fyrst skipun um að fara og skoða aðstæður á eyjunni,“ hefur NRK eftir Gjørv á blaðamannafundinum.
Klukkan var orðin 18:26 þegar lögreglan náði fyrst til Úteyjar, rúmri klukkustund eftir að Breivik steig þar á land og hóf að drepa ungliða í norska Verkamannaflokknum. Rannsóknarnefndin segir þetta óásættanlegan viðbragðstíma. Lögregla hefði átt að geta verið komin út í eyjuna kl. 18. Þetta var dýrkeypt töf, því í millitíðinni voru 19-20 ungmenni myrt.
Þegar yfir lauk og Breivik var handtekinn klukkan 18:34 um kvöldið hafði hann drepið 77 manns.