Óeirðir brutust út í Beirút og fleiri borgum Líbanons í dag, og ráðlögðu nokkur ríki við Persaflóa ríkisborgurum sínum að fara þegar í stað frá landinu. Var meðal annars veginum að flugvellinum í Beirút lokað í hamaganginum þegar óeirðaseggir kveiktu í hjólbörðum á veginum.
Óeirðirnar hófust þegar óstaðfestar fregnir, sem síðar reyndust rangar, bárust af því að líbanskir pílagrímar í Sýrlandi, sem hafði verið rænt í maí, hefðu fallið í loftárás á bæinn Aazaz fyrr um daginn. Reyndust sjö þeirra hafa særst. Var fjölda Sýrlendinga í Beirút rænt í hefndarskyni og eigur þeirra skemmdar.
Sádí-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Katar og Kúveit ráðlögðu öll borgurum sínum að yfirgefa landið þegar í stað, en Líbanon er vinsæll áfangastaður ferðamanna frá þessum ríkjum yfir sumartímann. Önnur ríki hafa ekki gengið svo langt, en bandaríska utanríkisráðuneytið sagði að Bandaríkin hefðu áhyggjur af stöðunni í landinu.
Óttast er að ofbeldið í Sýrlandi muni breiðast út til Líbanon, en mikil spenna hefur ríkt í landinu undanfarin misseri vegna stríðsins í nágrannaríkinu, en trúarhópar þar hafa skiptar skoðanir á ágæti Bashar Al-Assads, Sýrlandsforseta. Líbanon var hersetið af Sýrlandi í um þrjátíu ár fram til ársins 2005 og áhrif Sýrlands í landinu hafa verið rík í gegnum tíðina.