Sú ákvörðun stjórnvalda í Ekvador að veita stofnanda uppljóstrunarvefsins Wikileaks, Julian Assange, hæli í landinu hefur leitt til þess að yfirvöld í Bretlandi eru nú stödd á gráu svæði bæði diplómatískt og lagalega. Þetta kemur fram hjá fréttaveitunni AFP.
Bresk stjórnvöld hafa ítrekað lagt áherslu á að þau hyggist framselja Assange til Svíþjóðar en þarlend yfirvöld vilja yfirheyra hann vegna ásaka um kynferðislega misnotkun á tveimur konum þar í landi. Assange flúði í sumar í sendiráð Ekvador í London og ber því við að hann treysti því ekki að sænsk stjórnvöld framselji hann ekki til Bandaríkjanna. Bandarísk stjórnvöld vilja hafa hendur í hári hans vegna þeirra opinberu bandarísku gagna sem hafa verið birt á Wikileaks.
Utanríkisráðherra Breta, William Hague, sagði hins vegar í dag að bresk stjórnvöld hefðu ekki í hyggju að fara inn í sendiráð Ekvador og taka Assange höndum eins og áður hefur verið haldið fram. Hins vegar hafa bresk yfirvöld sagt að Assange yrði handtekinn um leið og hann yfirgæfi sendiráðið.