Bandarísk stjórnvöld lýstu í dag miklum áhyggjum sínum af frelsi fjölmiðla í Egyptalandi í kjölfar frétta af því að þarlend stjórnvöld hyggist draga fyrir dómstóla tvo gagnrýnendur nýkjörins forseta landsins Mohamed Morsi.
Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, Victoria Nuland, sagði að lögsóknin gengi þvert á þann anda uppreisnarinnar í Egyptalandi á síðasta ári þar sem Egyptar steyptu af stóli forseta landsins, Hosni Mubarak.
„Við höfum miklar áhyggjur af fréttum þess efnis að egypska ríkisstjórnin hafi í hyggju að setja hömlur á fjölmiðlafrelsi og gagnrýni í Egyptalandi,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Nuland og bætti því við að bandarísk stjórnvöld fylgdust náið með þróun mála í landinu.
Ritstjóri egypska dagblaðsins Al-Dustour, Islam Afifi, sem gagnrýnt hefur stjórnvöld í Egyptalandi fer fyrir dóm 23. ágúst næstkomandi en hann er sakaður um að dreifa fölsuðum fréttum og kynda undir óróa í landinu.
Þá heft dómsmál gegn spjallþáttastjórnandanum Tawfiq Okasha 1. september en sjónvarpsstöðinni sem hann rekur hefur þegar verið lokað.