Farþegar í strætisvagni í Berlín lentu margir í verstu lífsreynslu ævi sinnar í gærkveldi þegar ökumaður vagnsins ók á miklum hraða um götur borgarinnar eins og hann ætti lífið að leysa. Þeir urðu ekki hissa þegar lögreglu tókst loksins að stöðva strætisvagninn og í ljós kom að ökumaðurinn hafði innbyrt stóran skammt af kókaíni.
Fólkið hafði farið um borð í strætisvagninn í hverfinu Schöneberg í suðurhluta Berlínar grunlaust um hvað væri í vændum. En skyndilega jók bílstjórinn hraðann og var innan skamms kominn á mjög mikla ferð um götur borgarinnar. Hjólreiðamaður komst meðal annars með naumindum undan vagninum og þá ók bílstjórinn tvisvar yfir á rauðu ljósi.
Einn farþeganna hringdi í lögregluna úr strætisvagninum og lét hana vita af háskaakstrinum sem hann og aðrir farþegar í vagninum voru þátttakendur í nauðugir viljugir. Komið var fram yfir miðnætti þegar lögreglunni tókst að ná sambandi við bílstjórann í gegnum talstöð strætisvagnsins og fá hann til þess að stöðva vagninn.
Bílstjórinn var látinn taka lyfjapróf og kom í ljós að hann hefði innbyrt kókaín áður en hann mætti til vinnu samkvæmt dagblaðinu Berliner Zeitung. Maðurinn var í kjölfarið umsvifalaust sviptur ökuréttindum og gæti átt von á ákæru fyrir að skapa hættu í umferðinni.