Lene Tørudstad taldi hurð hafa skollið nærri hælum þegar hún var í ökuferð í gær miðvikudag ásamt fjölskyldu sinni á þjóðvegi í austurhluta Noregs en henni tókst með naumindum að komast hjá því að aka á elg sem staddur var á veginum með því að sveigja framhjá honum.
Tørudstad hafði þó ekki lengi andað rólega þegar hún sá björn framundan á veginum. Henni tókst hins vegar ekki að sveigja framhjá honum líkt og elgnum og ók því á björninn. Björninn lifði þó áreksturinn af og flúði særður inn í skóginn. Skotveiðimenn voru sendir í morgun á staðinn til þess að leita að birninum og kanna ástand hans en hann hefur ekki fundist.
Tørudstad sagði í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að sér, eiginmanni hennar og tveimur börnum þeirra hefði verið talsvert brugðið eftir að elgurinn varð á vegi þeirra. Síðan hefði björninn allt í einu birst. „Skyndilega var hann á veginum. Ég hemlaði eins fast og ég gat en við rákumst á björninn,“ sagði hún í viðtalinu.
„Ég skelf ennþá. Ég svaf varla tvær klukkustundir síðustu nótt. Það er eitt að aka á elg eða kött en björn. Það er eitthvað sem ég hefði aldrei átt von á,“ sagði hún ennfremur en hún og fjölskylda hennar sluppu ómeidd úr slysinu en bifreið þeirra er hins vegar talsvert skemmd eftir áreksturinn við björninn.