Má beita þýska hernum í Þýskalandi

Þýskir Leopard 2 skriðdrekar.
Þýskir Leopard 2 skriðdrekar. Wikipedia/Bundeswehr

Hægt verður í héðan í frá að beita þýska hernum á götum borga í Þýskalandi ef brýn nauðsyn krefst þess. Þetta er niðurstaða stjórnlagadómstóls landsins samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Samkvæmt niðurstöðunni er heimilt að beita hernum ef Þýskaland stendur frammi fyrir stórkostlegri árás en ekki til þess að hafa stjórn á mótmælum. Slík ákvörðun er þó háð samþykki ríkisstjórnar landsins.

Hins vegar kemur fram í niðurstöðunum að þýski herinn megi eftir sem áður ekki skjóta niður farþegaþotur sem teknar hafa verið yfir af hryðjuverkamönnum. Í slíku tilviki yrðu þýskar herþotur að fljúga í veg fyrir þotuna, skjóta viðvörunarskotum og neyða hana til þess að lenda.

Miklar takmarkanir á beitingu þýska hersins voru settar í stjórnarskrá Þýskalands eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar og valdatíma nasista vegna misbeitingar þeirra á þýska hernum. Þar kom fram að ekki mætti beita vopnuðum þýskum hermönnum á þýsku landsvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert