Pussy Riot sakfelldar

Stuðningsmenn Pussy Riot fyrir utan dómshúsið í Moskvu.
Stuðningsmenn Pussy Riot fyrir utan dómshúsið í Moskvu. AFP

Stúlkurnar í pönkhljómsveitinni Pussy Riot voru fundnar sekar um að raska almannafriði samkvæmt niðurstöðu dómara í Moskvu. Í niðurstöðu dómsins segir m.a. að þær hafi framið guðlast og raskað almannafriði er þær ruddust inn í kirkju í Moskvu og fluttu pönkbæn gegn Pútín forseta.

Dómarinn Marina Syrova sagði í niðurstöðu sinni að stúlkurnar þrjár hefðu „skipulagt af yfirvegun“ gjörning sinn þann 21. febrúar síðastliðinn og hafi „grafið undan“ grunnstoðum samfélagsins. Síðar í dag mun koma í ljós hversu langan dóm stúlkurnar fá en saksóknari fór fram á þriggja ára fangelsi.

„Tolokonnikova, Alyokhina og Samutsevich röskuðu almannafriði. Með öðrum orðum, þær brutu þær gróflega gegn almannareglum. Dómurinn hefur fundið þær sekar. Þessi niðurstaða dómsins byggir á framburði þeirra sjálfra og öðrum sönnunargögnum,“ sagði dómarinn Syrova m.a. í morgun. Sagði hún ennfremur að þær hafi sýnt samfélaginu óvirðingu með því að ryðjast inn í mikilvægustu kirkju Rússlands, aðeins fáum vikum fyrir forsetakosningarnar í landinu.

Stúlkurnar þrjár voru viðstaddar dómsuppkvaðninguna og brostu hughreystandi til hverrar annarrar.

Þær hafa verið í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði. Fjöldamótmæli eru vegna málsins víða um heim, m.a. við rússneska sendiráðið í Reykjavík.

Dómurinn var kveðinn upp  nú rétt eftir kl. 11 og var mjög mikil löggæsla við dómshúsið. Fjöldi fólks var saman kominn fyrir utan dómshúsið, m.a. margir fréttamenn.

Pussy Riot flutti pönkbæn gegn Pútín forseta í kirkju í Moskvu í febrúar sl. og voru meðlimir hennar í kjölfarið ákærðar fyrir óspektir.

Konurnar þrjár sem eru í haldi heita Yekaterina Samutsevich, Maria Alyokhina og Nadezhda Tolokonnikova. Þær eru allar yngri en 30 ára og tvær þeirra eiga börn. Þær hafa ekki fengið að sjá börnin sín síðan þær voru settar í gæsluvarðhald.

Fréttamenn fyrir utan dómshúsið í Moskvu.
Fréttamenn fyrir utan dómshúsið í Moskvu.
Yekaterina Samutsevich, Maria Alyokhina og Nadezhda Tolokonnikova við dómsuppkvaðninguna í …
Yekaterina Samutsevich, Maria Alyokhina og Nadezhda Tolokonnikova við dómsuppkvaðninguna í morgun. AFp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka