Kirkjan segist hafa fyrirgefið Pussy Riot

Meðlimir rússnesku pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot.
Meðlimir rússnesku pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot. AFP

Tveir hátt­sett­ir klerk­ar í rúss­nesku rétt­trúnaðar­kirkj­unni lýstu því yfir í dag að kirkj­an hefði fyr­ir­gefið meðlim­um rúss­nesku pönk­hljóm­sveit­ar­inn­ar Pus­sy Riot sem voru í gær dæmd­ir í tveggja ára fang­elsi fyr­ir óspekt­ir en þær sungu pönk­bæn fyrr á ár­inu í dóm­kirkju í Rússlandi gegn Vla­dimír Pútín for­seta lands­ins.

Tik­hon Shevkunov, sem fer fyr­ir Sreten­sky-klaustr­inu í Moskvu og er tal­inn vera and­leg­ur ráðgjafi Pútíns, sagði í sjón­varps­viðtali í dag að kirkj­an hefði fyr­ir­gefið söngvur­un­um strax eft­ir at­vikið sem átti sér stað í fe­brú­ar.

„Kirkj­an hef­ur stund­um verið sökuð um að hafa ekki fyr­ir­gefið þeim,“ sagði Shevkunov og bætti síðan við: „Við fyr­ir­gáf­um þeim strax í byrj­un. En slík­ar gerðir verður að stöðva af sam­fé­lag­inu og yf­ir­völd­um.“

Und­ir þetta tók Max­im Kozlov, sem er hátt­sett­ur prest­ur inn­an rúss­nesku rétt­trúnaðar­kirkj­unn­ar, í sam­tali við sjón­varps­stöðina. Hann sagðist enn­frem­ur vona að ungu kon­urn­ar í Pus­sy Riot og stuðnings­menn þeirra myndu sjá að sér.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert