Julian Assange biðlaði í dag til Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, að binda enda á nornaveiðar bandarískra stjórnvalda gegn vefsíðunni Wikileaks.
„Ég biðla nú til Obama forseta að gera hið rétta í málinu. Bandaríkin verða að snúa baki við nornaveiðum sínum gegn Wikileaks,“ sagði Assange.
Assange flytur nú ræðu á svölum sendiráðs Ekvadors í Lundúnum og er þetta í fyrsta skipti sem hann kemur fram opinberlega síðan hann leitaði hælis í sendiráðinu fyrir tveimur mánuðum.
Þá þakkaði Assange einnig stuðningsmönnum sínum, einkum ríkisstjórn Ekvadors en Assange lofaði forseta landsins fyrir það hugrekki sem hann sýndi þegar hann veitti honum hæli í landinu. „Ég vil þakka (Rafael) Correa, forseta, fyrir það hugrekki sem hann hefur sýnt af sér með því að veita mér pólitískt hæli,“ sagði Assange í ræðu sinni í dag.