Uppljóstrunarvefurinn Wikileaks hvatti í dag sænsk stjórnvöld til þess að heita því að Julian Assange, stofnandi síðunnar, yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna ef hann færi til Svíþjóðar. Sænsk yfirvöld vilja yfirheyra Assange vegna ásakana um kynferðisbrot gegn tveimur konum þar í landi.
Assange hefur síðan fyrr í sumar hafst við í sendiráði Ekvadors í London. Hann óskaði eftir hæli í landinu og hafa þarlend stjórnvöld veitt honum það. Bresk yfirvöld hafa hins vegar sagt að þau muni handtaka Assange um leið og hann yfirgefi sendiráðið þrátt fyrir að honum hafi verið veitt hæli í Ekvador.
Að sögn Assanges óttast hann að Svíar muni framselja hann til Bandaríkjanna en bandarísk stjórnvöld vilja hafa hendur í hári hans vegna þess fjölda skjala einkum í eigu utanríkisþjónustu Bandaríkjanna sem birtur hefur verið á Wikileaks.
„Það væri góður grunnur til þess að semja á um leið til þess að landa þessu máli ef sænsk yfirvöld myndu lýsa því yfir án skilyrða að Julian yrði aldrei framseldur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Kristni Hrafnssyni, talsmanni Wikileaks.
Gert var ráð fyrir því að Assange kæmi út fyrir sendiráðsbyggingu Ekvadors í dag klukkan 13:00 að íslenskum tíma til þess að gefa út yfirlýsingu til fjölmiðla en óvíst er hvort af því verður þar sem Bretar hafa sem áður segir hótað að handtaka hann um leið og hann stígur fæti út fyrir sendiráðið.