Vill sekta foreldra fyrir skróp

Ursula von der Leyen, atvinnumálaráðherra Þýskalands.
Ursula von der Leyen, atvinnumálaráðherra Þýskalands. AFP

Ursula von der Leyen, atvinnumálaráðherra Þýskalands, viðraði í dag hugmyndir sínar um að veita stjórnvöldum heimildir til þess að sekta foreldra barna sem skrópa reglulega í skóla. Þetta kom fram í viðtali við ráðherrann sem birtist í dagblaðinu Berliner Morgenpost í dag.

Þá heldur von der Leyen því fram að skólaskróp sé fyrsta skrefið í átt til atvinnuleysis. „Þegar við horfum á langtímaatvinnuleysi sjáum við að skróp er upphafspunkturinn,“ sagði von der Leyen í viðtali við blaðið og bætti við: „Fimmtíu prósent af þeim sem hafa verið atvinnulausir til langs tíma hafa hvorki grunn- né starfsmenntun.“

Þá segir hún sektir vera íþyngjandi en þeim verði að beita þegar foreldar brjóti gegn ákvæðum skólalaga. Að sögn von der Leyen væri einnig eðlilegt að veita lagaheimild til þess að hægt væri að kalla til lögreglu í svona málum. Hún vildi þó ekki útskýra nákvæmlega hvað fælist í þessum hugmyndum sínum, þ.e. hversu háar sektirnar yrðu og hversu alvarlegt skrópið þyrfti að vera áður en þeim yrði beitt.

Nánar má lesa um málið á fréttavefnum The Local.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert