„Ég var smám saman að deyja“

Friðrik Ólafsson og Boris Spasskí tefla í Reykjavík 2006 í …
Friðrik Ólafsson og Boris Spasskí tefla í Reykjavík 2006 í tilefni málþings um skáklist Friðriks. mbl.is/Ómar

Fyrrverandi heimsmeistarinn í skák, Boris Spasskí, flúði síðastliðinn föstudag til Moskvu, höfuðborgar Rússlands, eftir að hafa verið að eigin sögn í eins konar stofufangelsi í París síðan haustið 2010 þegar hann fékk heilablóðfall. Spasskí var í Rússlandi þegar hann fékk heilablóðfallið og var fluttur í kjölfarið á sjúkrahús í Moskvu.

Nokkrum vikum síðar var Spasskí fluttur til Parísar, höfuðborgar Frakklands, en hann er með tvöfalt ríkisfang, rússneskt og franskt, og hefur búið í Frakklandi síðan 1976. Í París fékk hann áframhaldandi læknismeðferð og var settur í eins konar stofufangelsi af eiginkonu sinni að því er fram kemur á skákvefnum ChessBase.com og þar byggt á umfjöllun rússnesks dagblaðs.

Vefsíðan birtir viðtal við Spasskí úr rússneska dagblaðinu sem tekið var eftir að hann kom til Rússlands. Þar er hann spurður hvers vegna ekkert hafi frést af honum undanfarin tvö ár og svarar hann því til að hann viti það í raun ekki ennþá. Í kjölfar heilablóðfallsins hafi hann verið fluttur á sjúkrahús í París þar sem hann hafi fengið hræðilega meðferð. Lítill áhugi hafi verið á því að lækna líkamleg mein hans en þess í stað hafi verið dælt í hann róandi lyfjum.

„Þegar ég var loks fluttur heim til mín áttaði ég mig á því að síminn hafði verið aftengdur og það var ekkert netsamband. Ég var einangraður. Ég grátbað um að fá að fara til Moskvu en enginn hlustaði á mig. Enn þann dag í dag veit ég ekki í hvers þágu þetta var allt saman gert,“ segir Spasskí í viðtalinu. Spurður hvort hann hafi einhverjar tilgátur í því sambandi segist hann ekki vilja fara út í þá umræðu. „Ég er ekki ríkur maður, en kannski hafði einhver einhverja fjárhagslega hagsmuni af því að ég léti lífið sem allra fyrst. Ég er ekki að ásaka neinn. Guð mun dæma þá.“

Flúði með aðstoð traustra vina

Spurður hvort hann hafi reynt að hafa samband við lögregluna eða barið í borðið segir Spasskí það ekki hafa verið mögulegt. „Það sem þú nefnir var ómögulegt. Ég gat ekki einu sinni talað. Jafnvel í dag get ég einungis komist um með aðstoð sérstaks tækis. Ég var allur þakinn sárum vegna lyfjanna sem þeir dældu í mig. Ég var smám saman að deyja,“ segir hann ennfremur.

Spasskí er þá spurður hvernig honum hafi tekist að flýja og svarar hann því til að þrátt fyrir allt eigi hann enn nokkra trausta vini sem hafi skipulagt flótta hans. „Fyrir það fyrsta vantaði mig skilríki þar sem ég hafði af einhverjum furðulegum ástæðum engin skilríki lengur. Hvorki frönsk né rússnesk. Ég get aðeins gert mér í hugarlund að þau hafi verið tekin af mér. Af hverjum? Ég hef engin svör við því. Í öllu falli, vinum mínum tókst að koma mér út úr húsinu og inn í bíl sem fór með mig í rússneska sendiráðið.“

Í rússneska sendiráðinu í París fékk Spasskí gefið út vegabréf til bráðabirgða svo hann gæti ferðast til Moskvu. Þangað fór hann síðan sem áður segir og var lagður inn á sjúkrahús þar sem hann er núna. Spurður hvernig honum líði segist hann vera skárri. „Ég vonast til að komast aftur á fætur eftir fáeina mánuði og geta aftur sinnt mínu venjubundna skáklífi.“

Aðspurður hvað hann hafi haft fyrir stafni undanfarin tvö ár á meðan hann hafi verið í eins konar fangelsi segist hann hafa skrifað sjálfsævisögu sína sem fengið hafi nafnið „Skákvegferð mín“. „Þar sem ég gerði mér grein fyrir því að mér væri meinað að sjá framtíðina ákvað ég að snúa mér að fortíðinni.“ Hann er að lokum spurður hvort hann sé kominn til Rússlands til að vera og svarar hann: „Ég vona það.“

Boris Spasskí til vinstri og Bobby Fischer til hægri á …
Boris Spasskí til vinstri og Bobby Fischer til hægri á heimsmeistaraeinvíginu í skák í Reykjavík 1972. mbl.is/Kristinn Benediktsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert