Tvítug einstæð móðir í Englandi hefur verið dæmd í 15 mánaða fangelsi fyrir að skilja rúmlega árs gamla dóttur sína eina eftir heima í myrkri og kaldri íbúð á meðan hún fór út að skemmta sér.
Konan játaði vanrækslu en upp komst um athæfið þegar áhyggjufullir nágrannar hringdu í lögregluna vegna mikils barnsgráturs sem barst iðulega úr íbúð konunnar.
Við réttarhöldin var sagt frá því að konan skildi 15 mánaða gamalt barnið eitt eftir í rimlarúmi sínu í heila viku að undanskildum fjórum skiptum þegar hún kom heim til að gefa því morgunkorn og örbylgjurétt áður en hún hélt aftur í gleðskap til vinar síns.
Lögreglumennirnir sem komu í íbúðina, eftir ábendingar nágrannanna, lýstu henni sem myrkri og kaldri og mátti finna mikið drasl í öllum herbergjunum, óhrein föt, tómar vín- og bjórflöskur og óhreinar bleyjur. Þeir fundu stúlkuna í rúmi sínu og færðu hana niður á lögreglustöð þar sem hún var þvegin og henni gefið að borða. Hafði hún þá verið ein í íbúðinni í yfir sólarhring. Lýstu lögregluþjónarnir því hvernig stúlkan hrifsaði til sín allan drykk og mat sem henni var réttur, rétt eins og hún hefði verið svelt. Læknir sem skoðaði stúlkuna sagði hana vera með mjög slæm bleyjuútbrot.
Konan grét þegar dómurinn var kveðinn upp og að sögn verjanda hennar vonast hún til þess að geta byggt upp samband við dóttur sína að nýju, að afplánun lokinni.