„Diplómatískt sjálfsmorð“ fyrir Bretland

Julian Assange ávarpar stuðningsmenn sína af svölum ekvadorska sendiráðsins í …
Julian Assange ávarpar stuðningsmenn sína af svölum ekvadorska sendiráðsins í London. AFP

Það væri diplómatískt sjálfsmorð af hálfu Breta ef þeir ætluðu sér að brjótast inn í sendiráð Ekvadors í London til að taka Julian Assange höndum. Þetta segir forseti Ekvadors, Rafael Correa. 

Correa segir að með slíkri framkomu myndu Bretar opna á það að friðhelgi þeirra eigin sendiráða um allan heim yrði hundsuð. Forsetinn kom fram í ríkissjónvarpi Ekvadors í gærkvöldi og svaraði þar spurningum um deilurnar sem standa um Assange, stofnanda Wikileaks, sem hefur verið veitt hæli í Ekvador en situr fastur í sendiráði þeirra í London. 

Aðspurður hvort hann teldi hugsanlegt að bresk yfirvöld myndu ráðast inn í sendiráðið til að handtaka Assange svaraði Correa að á meðan Bretar hefðu hvorki séð að sér né beðist afsökunar væri sú hætta fyrir hendi. Ekki kom fram í viðtalinu hvernig forsetinn sér fyrir sér næstu skref í átt að því að flytja Assange úr sendiráðinu, en hann sagðist reiðubúinn, ef þörf krefði, að leita til Sameinuðu þjóðanna. 

Samtök Ameríkuríkja munu funda á föstudag og sagðist Correa vongóður um stuðning þar. „Munið að Davíð sigraði Golíat, og ef Davíðarnir eru margir þá er auðveldara að fella Golíat,“ sagði Correa og bætti við: „Bretarnir segjast ekki hafa um neitt annað að velja en að framselja hann, en af hverju framseldu þeir ekki Augusto Pinochet?“

Rafael Correa forseti Ekvador
Rafael Correa forseti Ekvador AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka