Forsætisráðherra Grikklands, Antonis Samaras, kallar eftir því að lánardrottnar veiti Grikkjum meira svigrúm til að koma niðurskurði og hagræðingu í gegn. Ráðherrann á fundi í vikunni með Evrópuleiðtogum um hvort Grikkir hafi fullnægt skilyrðum til að fá greitt út neyðarlán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Samaras segir í viðtalið við þýska dagblaðið Bild að Grikkland þurfi „andrými“. Næsta greiðsla neyðarlánsins ætti samkvæmt áætlun að verða í september og er því þrýstingur á Samaras að sýna fram á að Grikkir hafi staðið undir kröfum um 11,5 milljarða evru niðurskurð innan næstu tveggja ára.
Forsætisráðherrann fundar í dag með Jean-Claude Juncker, oddvita efnahags- og myntbandalags Evrópu, og á föstudag heldur hann á fund Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Að sögn BBC er búist við því að forsætisráðherrann óski eftir framlengingu til 2016 til að fullnægja skilyrðunum, m.a. með þeim rökum að kosningarnar fyrr á þessu ári hafi tafið fyrir.
„Höfum það alveg á hreinu að við förum ekki fram á meira fé. Við stöndum við skuldbindingar okkar,“ segir Samaras í viðtalinu sem Bild birtir í dag. „Það eina sem við viljum er smáandrými til að blása lífi í efnahaginn með hraði og auka tekjur ríkisins.“