Grikkir vilja meira „andrými“

Antonis Samaras forsætisráðherra Grikklands
Antonis Samaras forsætisráðherra Grikklands AFP

Forsætisráðherra Grikklands, Antonis Samaras, kallar eftir því að lánardrottnar veiti Grikkjum meira svigrúm til að koma niðurskurði og hagræðingu í gegn. Ráðherrann á fundi í vikunni með Evrópuleiðtogum um hvort Grikkir hafi fullnægt skilyrðum til að fá greitt út neyðarlán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Samaras segir í viðtalið við þýska dagblaðið Bild að Grikkland þurfi „andrými“. Næsta greiðsla neyðarlánsins ætti samkvæmt áætlun að verða í september og er því þrýstingur á Samaras að sýna fram á að Grikkir hafi staðið undir kröfum um 11,5 milljarða evru niðurskurð innan næstu tveggja ára. 

Forsætisráðherrann fundar í dag með Jean-Claude Juncker, oddvita efnahags- og myntbandalags Evrópu, og á föstudag heldur hann á fund Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Að sögn BBC er búist við því að forsætisráðherrann óski eftir framlengingu til 2016 til að fullnægja skilyrðunum, m.a. með þeim rökum að kosningarnar fyrr á þessu ári hafi tafið fyrir. 

„Höfum það alveg á hreinu að við förum ekki fram á meira fé. Við stöndum við skuldbindingar okkar,“ segir Samaras í viðtalinu sem Bild birtir í dag. „Það eina sem við viljum er smáandrými til að blása lífi í efnahaginn með hraði og auka tekjur ríkisins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert