Geðveikur eða ekki - Breivik fer í Ila-fangelsið

Hvort sem Anders Behring Breivik verður dæmdur sakhæfur eða ekki mun hann afplána dóm sinn í Ila-fangelsinu í Noregi. Dómurinn verður kveðinn upp á morgun. Ila-fangelsið er rammgert og mun Breivik dúsa í sérstökum öryggisklefa.

Hægriöfgamaðurinn Breivik er 33 ára og drap 77 manns í Noregi í fyrra, í miðborg Óslóar og í Útey. Hann segist sjálfur sakhæfur og vill ekki fara á geðdeild líkt og saksóknarinn krefst.

Á morgun mun dómarinn kveða upp sinn dóm, m.a. hvort hann sé sakhæfur eður ei og hvort hann eigi þá í raun heima á geðdeild eða í almennu fangelsi.

En hvernig sem fer verður hann vistaður í Ila-fangelsinu í Akershus, skammt fyrir utan Ósló.

„Við erum tilbúin að taka á móti Breivik ef hann verður dæmdur til fangelsisvistar og einnig ef hann verður dæmdur til vistar á geðdeild,“ segir fangelsisstjórinn Knut Bjarkeid.

Aðstaðan er þó ekki fullbúin. Verði Breivik dæmdur ósakhæfur og til vistunar á geðdeild verður útbúin sérstök deild við fangelsið og á byggingu hennar að ljúka á næsta ári. Yfirvöld í Noregi segja réttargeðdeildir í landinu ekki hæfar til að taka á móti fanganum Breivik.

Verði hann dæmdur sakhæfur og sekur verður hann vistaður við svipaðar aðstæður og hann hefur verið í frá því hann var handtekinn fyrir ódæðið. Líklega verður honum haldið frá öðrum föngum fangelsisins, að minnsta kosti fyrst um sinn. Breivik hefur nú aðgang að þremur klefum, hver þeirra er átta fermetrar. Í einum sefur hann, í öðrum stundar hann líkamsrækt og í þeim þriðja er tölva negld við skrifborð.

Tölvan er ekki nettengd en Breivik má ekki eiga í neinum samskiptum við fólk utan fangelsisins. Dagblaðið VG segir að Breivik hafi þó aðgang að Wikipedia.

„Tölvan er eins og ný útgáfa af ritvél,“ segir Ellen Bjercke hjá fangelsinu við AFP. Hún segir ekki víst hvort Breivik, sem hefur sagst vilja skrifa bækur, fái aðgang að tölvu í Ila-fangelsinu. Bjercke segir þetta misskilning.

Í maí vakti VG einnig athygli á því að fangelsismálayfirvöld ætluðu að borga fólki fyrir að halda Breivik félagsskap, t.d. að tefla við hann. Þetta væri m.a. gert til að rjúfa einangrun Breivik sem annars bryti í bága við mannréttindasáttmálann.

Bjercke segir þetta misskilning. „Hugmyndin er sú að auka samskipti hans við starfsfólk fangelsisins, sem fær það verkefni að halda honum í formi, gera æfingar með honum og spjalla við hann.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert