Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og forseti Frakklands, François Hollande, munu síðar í dag ræða málefni Grikklands en í gær óskuðu grísk stjórnvöld eftir lengri tíma til að koma á sársaukafullum en nauðsynlegum niðurskurði í ríkisfjármálum.
Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að leiðtogarnir tveir muni í dag stilla saman strengi áður en þau eiga fund með forsætisráðherra Grikklands, Antonis Samaras, síðar í vikunni.
Bæði Merkel og Hollande hafa lýst því yfir að engar ákvarðanir verði teknar varðandi framtíð Grikklands fyrr en skýrsla endurskoðenda varðandi fjármál gríska ríkisins liggur fyrir í næsta mánuði. Endurskoðendur á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og Seðlabanka Evrópu fara nú yfir stöðu mála hjá ríkissjóði Grikklands.
Merkel hefur hins vegar lýst því yfir að Grikkir eigi að standa við þær skuldbindingar sem þeir tóku á sig. Trúverðugleiki Evrópu sé í húfi. Hún mun eiga fund með Samaras í Berlín á morgun en hann mun síðan fara á fund Hollande í París á laugardag.