Anders Behring Breivik brosti breitt þegar ljóst var í morgun að dómurinn telur hann sekan. Verjendateymi hans vilja þó ekki nota orðið „ánægja“ með niðurstöðuna, en segja ljóst að ekki verði áfrýjað af þeirra hálfu.
Saksóknarateymið hefur ekki sagt af eða á um hvort dómnum verði áfrýjað, en málflutningur þeirra gekk út frá því að Breivik væri veikur á geði og því ekki ósakhæfur. Carl Bore, einn lögmanna fórnarlamba Breiviks, ræður saksóknarateyminu frá því að áfrýja og það sama gerir laganeminn Eivind Dahl Thoresen, sem særðist en lifði af sprengjuárásina í Ósló.
Dómurinn setur lokapunkt
„Ég hef sagt við sjálfan mig að það skipti í sjálfu sér ekki svo miklu hvernig dómurinn hljómar, en innst inni er ég glaður og mér er létt að hann hafi verið fundinn sekur. Fyrst og fremst vegna þess að þá sleppum við vonandi við áfrýjun,“ hefur Aftenposten eftir Thoresen.
Hann var staddur í aðeins nokkurra metra fjarlægð frá sprengjunni sem Breivik kom fyrir í miðborg Ósló og særðist alvarlega. Rúmu ári og fimm skurðaðgerðum síðar segir hann lífið loksins að komast á réttan kjöl. „Ef það verður ekki áfrýjað þá getum við loksins sett punkt við þetta. Þá verður auðveldara fyrir mig og aðra að setja þetta að baki okkur. Fyrir marga er líka örugglega gott að sjá að honum sé í raun refsað með táknrænum hætti.“
Í samræmi við vilja Breivik
Aftenposten segir að þeir sem hafa liðið fyrir hryðjuverkin 22. júlí 2011 hafi varpað öndinni léttar þegar ljóst varð að Breivik fengi fangelsisdóm. Fyrsta geðmatinu sem geðlæknarnir Torgeir Husby og Synne Sørheim gerðu hafi þar með verið ýtt til hliðar. Nú vonist flestir til þess að ekki komi til áfýjunar. Lögmaðurinn Bore segir að það muni koma sér illa fyrir marga ef halda þurfi málinu áfram fyrir Hæstarétti. „Það verður mjög erfitt fyrir mína skjólstæðinga ef saksóknari ákveður að áfrýja á grundvelli fyrra geðmatsins.“ Hann segir enga þörf á áfrýjun.
Verjendur Breiviks segja að dómurinn sé í samræmi við það sem hann hafi sjálfur viljað. „Breivik hefur sjálfur alltaf litið svo á að hann sé heill á geði og því kemur þetta honum ekki á óvart,“ hefur Aftenposten eftir Geir Lippestad.