Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik vísar á bug fangelsisdómi yfir sér og segir hann ómarktækan. Hann mun hins ekki áfrýja dómnum. Að sögn Breivik þýddi það að hann viðurkenndi dóminn sem marktækan.
Í morgun var Breivik, sem myrti 77 manns í júlí í fyrra, úrskurðaður sakhæfur og dæmdur til hámarksrefsingar í norsku réttarkerfi, 21 árs fangelsi. Ef halda á Breivik lengur er 21 ár í varðhaldi þarf að kveða upp úrskurð um það árið 2032. Þá þarf að sýna fram á að hann sé hættulegur umhverfi sínu. Á grundvelli slíks úrskurðar er hægt að vista hann í öryggisgæslu á geðdeild, líkt og fjallað er ítarlega um í frétt mbl.is fyrr í dag.