Fatlaða stúlkan sem hefur verið ákærð fyrir guðlast í Pakistan og verið í haldi lögreglu er ólæs og óskrifandi, að sögn franska kardínálsins Jean-Louis Tauran. Stúlkan er sögð hafa brennt blaðsíður úr Kóraninum en hún er með Downs-heilkenni.
Í viðtali við útvarpið í Páfagarði segir kardínálinn að áður en ákæra var gefin út á hendur barninu hefði átt að kanna staðreyndir málsins, en stúlkan er kristin.
Rimsha er sögð vera á aldrinum 11-13 ára. Hún á að hafa brennt blaðsíður úr hefti fyrir börn sem m.a. innihélt vers úr Kóraninum. Hún var handtekin eftir að nágranni klagaði til lögreglu og er enn sögð í haldi.
„Stúlkan getur hvorki lesið né skrifað og safnar rusli til að draga fram lífið og fann brot úr bókinni innan um rusl,“ sagði Tauran í viðtalinu en hann var utanríkisráðherra Páfagarðs í tíð Jóhannesar Páls páfa II.
Guðlast er mjög alvarlegur glæpur í Pakistan og samkvæmt lögum má dæma fólk til dauða fyrir slíkt.